Forsíða
1.2 Starfsemi ársins

Ávarp framkvæmda­stjóra

Gerð­ur Guð­jóns­dótt­ir

Sviptingar á fjármálamörkuðum voru óvenju miklar á árinu 2022. Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir hérlendis sem erlendis voru erfiðir og verð á flestum mörkuðum fór lækkandi. Afleiðingarnar birtast í tölum sem sýna að verðmæti eignasafns sjóðsins lækkaði um 3,5 ma.kr. á árinu og að tryggingafræðileg staða A deildar er neikvæð um 10,8% í lok árs 2022 og þannig utan viðmiða gildandi laga. Fyrir langtímafjárfesti á borð við lífeyrissjóð er sem fyrr mun marktækara að líta til ávöxtunar eigna til lengri tíma en eins árs. Í því tilliti er vert að hafa í huga að raunávöxtun nam að jafnaði 2,4% undanfarin fimm ár og 3,6% undanfarin tíu ár.  

Raunávöxtun nam að jafnaði 2,4% undanfarin fimm ár og 3,6% undanfarin tíu ár

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg athugun á A deild sýnir að staða hennar er utan þeirra marka sem áskilin eru í 39. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sjóðurinn mun bregðast við þessu með breytingu á réttindum um leið og tillögur frá tryggingastærðfræðingi sjóðsins liggja fyrir.

Tryggingafræðileg athugun á V deild sýnir annað árið í röð að hún er yfir 5,0% viðmiði, en ef sá munur helst samfellt í fimm ár þarf að bregðast við stöðunni með breytingu á réttindum.

Versnandi tryggingafræðileg staða sjóðsins skýrist af hækkandi lífaldri, lækkandi eignaverði og aukinni verðbólgu, auk þeirrar staðreyndar að lífeyrisskuldbindingar eru að fullu verðtryggðar.

Samþykktabreytingar

Í byrjun ársins tóku gildi breytingar á samþykktum sjóðsins er varðar aldurstengd réttindi A deildar og V deildar. Helsta ástæðan fyrir þessum breytingum er hækkandi lífaldur Íslendinga og hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða sem gerðu það nauðsynlegt að breyta aldurstengdri ávinnslu réttinda í A deild og ávinnslu réttinda í V deild sjóðsins í framtíðinni. Ávinnsla réttinda til framtíðar er lækkuð og hafa samþykktirnar nú að geyma nýjar réttindatöflur sem taka mið af bæði aldri og fæðingarári. Breytingin hefur hvorki áhrif á áunnin réttindi né greiðslur lífeyris.

Þessi samþykktabreyting er fyrsta skrefið af þremur þar sem brugðist er við þeirri staðreynd að eftirlaunaárum sjóðfélaga er að fjölga vegna hækkunar á lífaldri. Sjóðurinn verður að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja að lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar ávinna sér yfir starfsævi sína dugi til greiðslu ævilangs lífeyris. Næstu skref í samþykktabreytingum varða framtíðarávinnslu í jafnri ávinnslu í A deild sem og áunnin réttindi.   

Eftirlaunaárum sjóðfélaga er að fjölga vegna hækkunar á lífaldri

Vegferð okkar í átt að sjálfbærni

Í samvinnu við ráðgjafa hóf sjóðurinn fimm þrepa sjálfbærnivegferð, sem hófst með fræðslu fyrir starfsfólk um sjálfbærni. Því næst hófst vinna að mikilvægisgreiningu með helstu hagaðilum sjóðsins og er sú vinna langt komin. Nú er unnið að setningu markmiða og lykilmælikvarða og í framhaldi mun liggja fyrir sjálfbærnistefna fyrir sjóðinn og fjárfestingar hans. Út frá niðurstöðu hennar verður gerð aðgerðaáætlun og loks mótaðar tillögur um skýrslugjöf.

Sjóðurinn reiknar kolefnisspor sitt og birtir sjálfbærniuppgjör með upplýsingum um áhrif rekstrar hans á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Klappir hafa aðstoðað við gerð sjálfbærniuppgjörsins, sem unnið er á grundvelli upplýsinga sem safnað hefur verið fyrir síðastliðið ár með aðstoð hugbúnaðarins Klappir.

Hluthafastefna 

Sjóðurinn framfylgir hluthafastefnu sinni og birtir á heimasíðu upplýsingar um hvernig farið er með atkvæði sjóðsins á aðalfundum og hluthafafundum skráðra félaga. Hluthafastefnu sjóðsins má finna hér.

Teikningar í árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins tilnefndar til verðlauna

Við fylltumst stolti þegar Félag íslenskra teiknara tilnefndi teikningar sem prýða árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins til verðlauna en þau Snorri Eldjárn Snorrason og Júlía Runólfsdóttir teiknuðu og sáu um. Við þökkum þeim fyrir frábær störf.

Félag íslenskra teiknara tilnefndi teikningar sem prýða árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins til verðlauna

Bætt þjónusta

Við höfum lagt áherslu á stafræna vegferð og markmið sjóðsins er að auka þjónustuhlutfall sjálfvirkrar afgreiðslu til að einfalda sjóðfélögum okkar lífið og lækka rekstrarkostnað sjóðsins til lengri tíma. Í samræmi við það hefur sjóðurinn nú innleitt sms-áminningarkerfi í málaskráningarkerfi sitt. Nú fá örorkulífeyrisþegar hnipp bæði með sms og í tölvupósti þegar tími er kominn til að skila inn læknisvottorði vegna endurnýjunar á greiðslum lífeyris. Þá fá lífeyrisþegar og lántakendur einnig hnipp með sms og/eða með tölvupósti þegar ný gögn eru sett inn í gátt þeirra hjá sjóðnum.

Námskeið um lífeyrismál við starfslok

Sjóðurinn býður sjóðfélögum námskeið um lífeyrismál við starfslok, sem haldin eru bæði með rafrænum hætti og á starfsstöð sjóðsins. Á námskeiðunum er farið almennt yfir uppbyggingu lífeyriskerfisins og sýnt hvar upplýsingar um lífeyrisréttindi er að finna, auk þess sem spurningum sem fram koma er svarað. Sjóðurinn rekur ólíkar deildir með mismunandi réttindakerfum og námskeiðunum er því skipt upp eftir deildum.

Sjóðfélagalán

Mínar síður á heimasíðu sjóðsins

Á árinu hætti sjóðurinn að birta greiðsluseðla lána í rafrænum skjölum í netbanka eins og áður hafði verið gert með tilheyrandi kostnaði. Nú er hægt að nálgast greiðsluseðlana á „mínum síðum“ á heimasíðu sjóðsins. Þar er einnig að finna lánareikni og ýmis skjöl og upplýsingar varðandi lán. Á síðunum er jafnframt hægt að greiða inn á lán eða greiða þau upp.   

Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrði fasteignalána

Þann 16. júní 2022 tóku í gildi reglur Seðlabanka Íslands nr. 701/2022 um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda og nr. 702/2022 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda en reglurnar voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar tveimur dögum fyrr. Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir fyrstu kaupendur var lækkað úr 90,0% í 85,0% af markaðsverði fasteignar. Sett voru viðmið um lágmarksvexti við útreikning hámarks greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda og gerðar breytingar á hámarki lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir verðtryggð lán sem nú er 25 ár í stað 30 ára áður. Þessar nýju reglur höfðu tiltölulega lítil áhrif á eftirspurn sjóðfélagalána á árinu 2022 en þær hafa því miður íþyngjandi áhrif á marga og þá sérstaklega kaupendur fyrstu íbúðar sem og fólk sem er að slíta sambúð eða skilja.

Vaxtakjör sjóðfélagalána

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti bankans sex sinnum á árinu 2022 með þeim afleiðingum að þeir hækkuðu úr 2,0% í 6,0%. Í samræmi við aðferðafræði sjóðsins um vaxtaákvarðanir lána voru gerðar á árinu fimm breytingar á vaxtakjörum lánanna, oftast til hækkunar.  

Ný lán á árinu

Á árinu voru afgreidd 587 sjóðfélagalán og nam heildarfjárhæð þeirra tæpum 17 milljörðum króna. Útlán hafa aðeins einu sinni numið hærri fjárhæð í sögu sjóðsins. Útistandandi lán voru alls 2.168 lán í árslok og heildarfjárhæð þeirra 47,2 milljarðar króna.

Greiðsluseðlar lánar birtast á mínum síðum á heimasíðu sjóðsins

Ný vefþjónusta - villuprófun lífeyrisskilagreina

Sjóðurinn hefur í samstarfi við Devon ehf. þróað nýja vefþjónustu sem villuprófar skilagreinar. Sú virkni hefur nú þegar verið felld inn í Kjarna, mannauðs- og launakerfi frá Origo, og geta notendur Kjarna því villuprófað skilagreinar til sjóðsins áður en launakeyrslu er lokað og leiðrétt þær áður en þeim er skilað til sjóðsins. Dæmi um villuprófanir er aldur launþega og afstemmingar á mótframlagi og iðgjaldi til endurhæfingarsjóðs. Í þessari nýju virkni felst mikil hagræðing bæði fyrir notendur Kjarna og lífeyrissjóðinn, þar sem nú er hægt að komast hjá vandasömum leiðréttingum á villum sem áður komu ekki í ljós fyrr en við skil skilagreina og eftir lok launakeyrslu. Þetta er vonandi forsmekkurinn að því sem koma skal en miklar væntingar eru til þess að fleiri lífeyrissjóðir og önnur launakerfi fylgi í kjölfarið og bjóði upp á þessa nýju virkni.

Brúin til framtíðar

Sjóðurinn hefur unnið að því að skerpa áherslur og framtíðarsýn til að marka leiðina og forgangsraða verkefnum. Áfram verður lögð áhersla á stafræna vegferð og markmið okkar er að auka þjónustuhlutfall sjálfvirkrar afgreiðslu til að einfalda sjóðfélögum okkar lífið, tryggja góða þjónustu og lækka rekstrarkostnað sjóðsins til lengri tíma.

Við höfum á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki með mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði. Fólkið okkar er reiðubúið að bretta upp ermarnar til að leysa þau spennandi verkefni sem framundan eru með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.  

Við höfum á að skipa framúrskarandi hæfu starfsfólki með mikla þekkingu og reynslu á sínu sviði