Forsíða
1.1 Starfsemi ársins

Ávarp stjórnar­formanns

Auð­ur Kjart­ans­dótt­ir

Árið 2022 einkenndist af stórfelldum breytingum í hagkerfum heimsins og var ein helsta ástæðan fyrir því innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, sem hófst í febrúar. Eignamarkaðir áttu undir högg að sækja allt árið og virðist sem fáir eignaflokkar hafi farið varhluta af ótryggum ytri aðstæðum. Allir helstu hlutabréfamarkaðir lækkuðu töluvert á liðnu ári. Ávöxtun sjóðsins á árinu endurspeglar þennan veruleika. Eftir tímabil lágra vaxta og mikillar peningaprentunar hreiðraði verðbólga um sig og fór hratt vaxandi á árinu. Seðlabankar heims hafa brugðist við ástandinu með hröðum og miklum vaxtahækkunum með tilheyrandi áhrifum á eftirspurn og eignaverð. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa á helstu mörkuðum hækkaði á árinu ásamt því sem áhættuálag fyrirtækjabréfa hækkaði töluvert. 

Raunávöxtun sjóðsins var neikvæð um 12,9% á árinu og nafnávöxtun neikvæð um 4,7%. Sú niðurstaða er aðeins lýsandi fyrir síðastliðið ár. Lífeyrissjóðurinn er langtímafjárfestir og hefur skilað góðri ávöxtun síðustu ár að undanskildu árinu 2022. Meðalávöxtun síðustu 10 ára er 3,6%, sem er yfir því viðmiði sem lífeyrissjóðir setja sér, en gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir nái 3,5% raunávöxtun á ári að meðaltali.  

Hlutabréfamarkaðir lækkuðu töluvert á liðnu ári og endurspeglar ávöxtun sjóðsins á árinu þennan veruleika

Íslenska lífeyriskerfið annað árið í röð í fyrsta sæti

Það er mjög jákvætt að íslenska lífeyriskerfið er nú í annað sinn í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að. Í þessum samanburði eru lífeyriskerfi í alls 44 ríkjum metin en í næstu sætum fyrir neðan Ísland eru Holland og Danmörk. Þessi þrjú ríki eru þau einu sem lenda í efsta flokki vísitölunnar þegar lögð eru saman stig fyrir árangur samkvæmt þremur viðmiðum, en þau eru að réttindi sjóðfélaga séu góð, að rekstur kerfanna sé sjálfbær og að umgjörð þeirra sé traust. Í skýrslunni er einnig bent á hvernig má hækka heildareinkunn Íslands enn frekar sem er gott veganesti til komandi ára.

Breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Alþingi samþykkti í júní 2022 breytingar á lögum um lífeyrissjóði og fleiri lögum. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2023 og hafa meðal annars áhrif á iðgjald sjóðfélaga og ráðstöfun þess. 

Helstu breytingar eru að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%. Sjóðfélögum er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% af launum til svokallaðrar tilgreindrar séreignar sem fellur undir þrengri útborgunarheimildir en hefðbundinn séreignarsparnaður. Tilgreindri séreign má ráðstafa skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjóðfélagar sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði undangengin fimm ár teljast vera kaupendur að fyrsta húsnæði og geta því nýtt heimildir laganna. 

Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%

Fyrirhuguð slit ÍL-sjóðs

Fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að ríkið ætli að grípa til aðgerða vegna stöðu ÍL-sjóðsins og að þrír kostir séu fyrir hendi. Í fyrsta lagi að halda áfram að leggja ÍL-sjóðnum til fjármuni, sem ráðherra telur ekki koma til greina, í öðru lagi að knýja sjóðinn í gjaldþrot með sérstakri lagasetningu, til að losna undan ríkisábyrgð, og í þriðja lagi að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur, sem að stærstum hluta eru lífeyrissjóðir, um uppgjör. Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa, í ljósi mikilla hagsmuna sjóðfélaga, myndað sameiginlegan vettvang vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna málsins. Fyrir liggja umfangsmikil lögfræðiálit sem undirstrika afar sterka lagalega stöðu íslenskra lífeyrissjóða vegna fyrirhugaðra slita ÍL-sjóðs með vísan til þess að fyrirhuguð lagasetning fjármálaráðherra um gjaldþrot eða sambærileg skuldaskil sjóðsins fer í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Fyrirhuguð lagasetning fer í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu

Ný stjórn tók við 1. nóvember

Samkvæmt samþykktum sjóðsins er stjórnin skipuð sex einstaklingum og tveimur varamönnum. Skipunartími er fjögur ár og ný stjórn hóf störf 1. nóvember sl. Að þessu sinni hættu þau Garðar Hilmarsson og Halldóra Káradóttir í stjórn en í stað þeirra komu þau Gunnsteinn R. Ómarsson og Helga Benediktsdóttir. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka bæði fyrrverandi og núverandi stjórnar- og nefndarfólki fyrir afar gott samstarf og vel unnin störf á liðnu starfsári.

Þakkir til starfsfólks

Yfirstandandi faraldur setti áfram mark sitt á starfsemi sjóðsins. Í byrjun ársins þurfti enn á ný að loka skrifstofu sjóðsins vegna samkomutakmarkana og einvala lið starfsfólks okkar vann þá aftur heiman frá sér. Starfsemi sjóðsins gekk ótrúlega vel á Covid-tímabilinu þar sem við vorum svo lánsöm að hafa tekið mörg skref í stafrænum lausnum sem nýttust vel við þessar aðstæður. Ársins 2022 verður þó væntanlega fyrst og fremst minnst fyrir að við fengum aftur frelsi og eðlilegt líf eftir tveggja ára heimsfaraldur.  

Starfsfólk sjóðsins býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu sem gagnast mjög vel í daglegu starfi og þegar sinna þarf krefjandi og flóknum verkefnum. Ég, fyrir hönd stjórnar, þakka starfsfólki sjóðsins fyrir afar gott samstarf og vel unnin störf.  

Ársins 2022 verður minnst fyrir að við fengum aftur frelsi og eðlilegt líf eftir heimsfaraldur