Forsíða
1.3 Starfsemi ársins

Efna­hags­um­hverfi

Þróun á helstu mörkuðum og hagstærðum sem hafa áhrif á eignasafn sjóðsins.

Verðlagsþróun

Verðbólga hækkaði meira og hraðar á Íslandi á árinu 2022 en sést hefur um langt árabil og mældist í lok ársins 9,3%. Það er langt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands sem skilgreinir stöðugt verðlag sem 2,5% verðbólgu á tólf mánuðum. Helstu ástæður vaxandi verðbólgu voru hækkanir á fasteignamarkaði, verðhækkanir á mat- og drykkjarvörum og aukinn kostnaður við ferðir og ferðalög. Seðlabankinn hækkaði vexti sex sinnum á árinu, samtals um 4,0% eða úr 2,0% í 6,0%, til að bregðast við aukinni verðbólgu. 

Verðbólga hækkaði meira en sést hefur um langt árabil

Verðbólguþróun

undanfarin 5 ár
20182019202020212022

Landsframleiðsla

Landsframleiðsla jókst um 6,4% á árinu 2022 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Eftir verulegan samdrátt árið 2021 vegna áhrifa kórónufaraldursins virðist sem efnahagskerfið sé búið að ná sér upp úr lægðinni. 

Atvinnuleysi

Skráð almennt atvinnuleysi mældist 3,4% í desember og minnkaði jafnt og þétt á árinu 2022 eða úr 4,9% í byrjun árs. Íslenska krónan veiktist á árinu og nam veikingin gagnvart Bandaríkjadal 9,1% en gagnvart evru 2,6%. 

Skuldabréfamarkaður

Liðið ár var þungt á innlendum skuldabréfamarkaði og vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, sem hófust á árinu 2021, höfðu víðtæk áhrif. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa, bæði verðtryggðra og óverðtryggðra, hækkaði á árinu. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) lækkaði um 2,8%, óverðtryggð skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) lækkaði um 4,2% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) stóð nánast í stað með 0,15% hækkun. Í árslok voru 27 sjálfbær skuldabréf á skrá hjá Kauphöllinni og fjölgaði um níu á árinu. 

27 sjálfbær skuldabréf á skrá hjá Kauphöllinni og fjölgaði um níu á árinu

Skuldabréfavísitölur

á árinu
JFMAMJJÁSOND

Hlutabréfamarkaður

Árið 2022 var tíðindamikið á hlutabréfamörkuðum um heim allan. Á Íslandi lækkaði heildarvísitala skráðra félaga í Nasdaq Iceland (OMXIGI) um 12,3% og voru sveiflur yfir árið talsverðar. Seðlabanki Íslands hækkaði vexti skarpt á árinu með neikvæðum áhrifum á eignaverð á mörkuðum hérlendis þegar á heildina er litið. Órói og óvissa á heimsmörkuðum var einnig mikil og voru ástæðurnar fyrir því margþættar. Má þar nefna stríðið í Úkraínu og vandamál í aðfangakeðjum ásamt hækkandi vöxtum og verðbólgu um heim allan. Áhrif allra þessara þátta smituðust beint og óbeint út í innlenda hlutabréfamarkaðinn en þó með mismunandi hætti. 

Hlutabréfavísitala

á árinu
JFMAMJJÁSOND

Miklar og hraðar vaxtahækkanir höfðu jákvæð áhrif á vaxtamun bankanna en hækkuðu fjármagnskostnað annarra félaga. Starfsemi flugfélaganna komst aftur í gang eftir að hagkerfi heimsins opnuðust en mikil hækkun olíuverðs sökum aukinnar eftirspurnar og óróleika á orkumörkuðum dró úr afkomunni. Verðbreyting innlendra hlutabréfa yfir árið 2022 var á mjög breiðu bili. Til að mynda lækkaði gengi Marels, sem er stærsta félagið í Kauphöllinni, um 43,9% en Síldarvinnslan hækkaði um rúm 22,2%.  

 

Tvö ný félög, Ölgerðin og NOVA, voru skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar á árinu. Óhætt er að segja að bæði hlutafjárútboðin hafi gengið vel þar sem þátttaka fagfjárfesta og ekki síður almennings var mikil og talsverð umframeftirspurn í báðum útboðum. Á First North markað Kauphallarinnar bættist einnig eitt nýtt félag, Alvotech, sem var síðan skráð á aðalmarkaðinn.

3ný félög skráð á aðalmarkað
0ný félög skráð á Nasdaq First North

Erlend verðbréf

Allir helstu hlutabréfamarkaðir heims lækkuðu á árinu 2022. Eftir tímabil lágra vaxta og mikillar peningaprentunar jókst verðbólga hratt. Seðlabankar heimsins brugðust við með hröðum vaxtahækkunum sem höfðu tilheyrandi áhrif á eftirspurn og eignaverð. Jafnframt hafa helstu Seðlabankar nú hætt skuldabréfakaupum eða svonefndri magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) og leggja nú fremur áherslu á að minnka efnahagsreikning sinn með sölu skuldabréfa. Sala á skuldabréfum er til þess fallin að draga úr peningamagni í umferð og þessi herðing peningalegs aðhalds hefur haft neikvæð áhrif á eignaverð á mörkuðum. 

 

Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI), sem mælir gengi rúmlega 1.600 hlutabréfa í heiminum, lækkaði um 17,9% mælt í Bandaríkjadölum. Í íslenskum krónum lækkaði vísitalan hins vegar um 10,4%. Sé horft til einstakra hlutabréfamarkaða lækkuðu hlutabréf í Bandaríkjunum (S&P 500 vísitalan) um 18,1% mælt í Bandaríkjadölum en 10,6% mælt í krónum. Hlutabréf í Evrópu (MSCI Europe) lækkuðu um 12,3% mælt í evrum en 9,9% mælt í krónum. Hlutabréf nýmarkaðsríkja, sem vísitalan MSCI Emerging Markets mælir, lækkuðu um 22,5% mælt í Bandaríkjadölum en 16,1% mælt í krónum. 

Heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) lækkaði um 17,9%